Rauði múrinn gliðnar

Nú er aðeins vika í þingkosningar í Bretlandi. Boris Johnson, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, boðaði til þeirra nánast undir þeim formerkjum að þær séu þjóðaratkvæðagreiðsla um Brexit, útgönguna úr Evrópusambandinu. Þegar tók að líða á kosningabaráttuna hefur þó komið í ljós að breskum almenningi er ekki alveg sama um önnur málefni líðandi stundar.

Ég bý í Canterbury, 60 þúsund manna bæ í suðaustur Englandi, sem fær að kalla sig borg því hér er dómkirkja landsins og sæti erkibiskupsins af Kantaraborg. Svæðið er fremur einsleitt, flestir íbúar tilheyra efri millistétt og langflestir eru hvítir á hörund. Hér eru þó einnig þúsundir háskólanema, enda þrír háskólar í borginni. Canterbury hafði verið öruggt vígi Íhaldsflokksins í meira en eina og hálfa öld, þangað til Verkamannaflokkurinn vann óvæntan, og mjög tæpan, sigur árið 2017. Það var Rosie Duffield sem hafði Sir Julian Brazier undir, en hann hafði verið þingmaður borgarinnar í þrjátíu ár fyrir Íhaldsflokkinn. Duffield var algjör nýgræðingur í stjórnmálum, en hún er einstæð móðir sem vann áður fyrir sér sem ófaglærður aðstoðarkennari í grunnskóla og reynt fyrir sér í skrifum og kvikmyndagerð. Canterbury varð þá rauður depill í því bláa hafi sem Kent-hérað er ennþá. Sigur Verkamannaflokksins hér í borg þótti ein óvæntustu úrslit kosninganna 2017, og má með góðum vilja líkja því við að Vinstri græn myndu landa sigri í Garðabæ, svo óvænt þóttu úrslitin. Sigurinn hefur verið skýrður með því að Verkamannaflokknum í Canterbury tókst að virkja háskólanema í borginni og fá þá á kjörstað í stórum stíl. Nú er tvísýnt með að Canterbury haldist rauð, enda skildu aðeins tæplega 200 atkvæði á milli Duffield og frambjóðanda Íhaldsmanna fyrir tveimur árum og eru aðrar aðstæður, og óhagstæðari, uppi í dag í landsmálunum.

Öflug grasrót Verkamannaflokksins

Það verður þó að segjast að miðað við braginn á borginni að Verkamannaflokkurinn er mun sýnilegri en aðrir flokkar. Þrátt fyrir að Íhaldsflokknum sé spáð sigri má sjá skilti og plaköt til stuðnings Duffield og Verkamannaflokknum út um alla borg, fólk gengur um með kosninganælur og víða má sjá fótgönguliða að bera út fagnaðarerindið. Í því liggur styrkur Verkamannaflokksins einmitt á landsvísu, því grasrót Verkamannaflokksins er margfalt stærri en Íhaldsflokksins. Ólíkt íslenskum flokkum fá breskir stjórnmálaflokkar enga ríkisstyrki til að reka kosningabaráttu, og þeir þurfa því að reiða sig á sjálfsafla fé frá einstaklingum og fyrirtækjum. Þar liggur á móti styrkur Íhaldsflokksins, enda notar Verkamannaflokkurinn hvert tækifæri til þess að mála Íhaldsflokkinn sem vini milljónamæringanna og flokk auðvaldsins.

Boris molar múrinn

Hvað sem kosningabaráttunni í Canterbury líður þá eru enn stærri tíðindi líkleg til að berast úr norðurhluta landsins þegar talið verður upp úr kjörkössunum. Nú er talað um að Johnson takist að gera það sem engum Íhaldsmanni hefur tekist, að mynda sprungu í „Rauða múrinn“ í Norður-Englandi og Norður-Wales. Þennan múr mynda stórar borgir eins og Manchester, Liverpool, Sheffield og Hull. Vandinn er þó stærstur í minni bæjum og úthverfum í Rauða múrnum, sem áður voru mikil iðnaðarsvæði, eins og Stoke, Derby, Middlesborough o.s.frv. Verkamannaflokkurinn hefur getað gengið að þingsætum á þessum svæðum nánast vísum í áratugi. Sú alþjóðlega þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum, að vinnandi fólk hefur fjarlægst vinstriflokka, kemur illa niður á Verkamannaflokknum í Norður-Englandi. Þau sæti eru flokknum nauðsynleg ætli hann sé að landa sigri.

Í Norður-Englandi eru fyrir á fleti stórir hópar fólks sem hafa kosið Verkamannaflokkinn til áratuga en kusu með Brexit í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016. Verkamannaflokkurinn hefur verið að fjarlægst þennan kjósendahóp, og nú er svo komið að þeir eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Þetta á aðallega við karla á miðjum aldri og upp úr, sem hafa íhaldssamari skoðanir í félagsmálum og vilja sjá Brexit, harðari innflytjendalöggjöf og andsvar við hnattvæðingunni sem hefur leikið iðnaðarhéröðin grátt.

Arfleið Thatchers víkur fyrir Brexit

Sjálfsagt hefði einhver látið segja sér það tvisvar að verkamenn í gömlum kolaframleiðslu- og verksmiðjubæjum kysu Íhaldsmenn í stórum stíl. Þar unnu áður þúsundir í kolanámum sem ríkisstjórnir Íhaldsmanna, með Margaret Thatcher í broddi fylkingar, létu loka og verksmiðjur og annar iðnaður á svæðunum fylgdi fljótlega með og störfin flutt til landa þar sem vinnuafl var ódýrara. Efnahagsleg og félagsleg hnignun hefur síðan einkennt þessi svæði, sem og talsverð fyrirlitning á Íhaldsmönnum og Thatcher. Á síðari árum hefur andrúmsloftið þó frekar einkennst af vantrausti í garð stjórnmálamanna almennt, andstöðu við innflytjendur og stuðningi við Brexit.

Johnson hefur höfðað með skýrum hætti til þessara hópa. Hann hefur boðað miklar fjárfestingar í innviðum sem og styrki til svæða í Norður-Englandi sem hafa farið halloka, kallað eftir harðari innflytjendalöggjöf og lofað að koma Bretlandi út úr Evrópusambandinu. Margir kjósendur Verkamannaflokksins í „Rauða múrnum“ virðast því ætla að horfa framhjá vofu Thatchers og setja til hliðar gömlu fyrirlitninguna á Íhaldsmönnum.

Skilaboð Johnsons til þessara hópa eru einföld: Að þeir geti treyst honum fyrir Brexit. Hann muni koma útgöngunni í gegn, og eftir það þurfi þeir ekki endilega að kjósa sig aftur. Ef stór hópur kjósenda sem hefur alltaf kosið Verkamannaflokkinn brýtur hefðina kann þó að vera að ekki verði aftur snúið. Eftir að hafa farið yfir víglínuna og krossað við Íhaldsflokkinn einu sinni verður auðveldara fyrir þetta sama fólk að kjósa annað en Verkamannaflokkinn næst. Breytingin gæti því verið varanleg og haft áhrif á stöðu Verkamannaflokksins um ókomin ár.

Hinn eini sanni Brexit-flokkur

Í þessu liggur einmitt helsta sóknarfæri Íhaldsflokksins, því hann er orðinn hinn raunverulegi Brexit-flokkur. Vissulega er í framboði annar flokkur með því nafni undir forystu Nigel Farage, en hann hefur hinsvegar nánast dregið sig úr baráttunni og undir rós lýst yfir stuðningi við Johnson og Íhaldsflokkinn. Af þessum sökum hefur kosningabarátta Íhaldsflokksins verið frekar lágstemmd að öðru leyti en hvað varðar Brexit. Þó Johnson sé tíðrætt um aukin fjárframlög í heilbrigðiskerfið og fjölgun lögregluþjóna, er það meira í framhjáhlaupi og af hálfgerðu áhugaleysi. Stefnuskráin er þunn af yfirlögðu ráði, því þegar öllu er á botninn hvolft snýst allt um Brexit.

Hin pólitíska staða er sú að ef Íhaldsflokkurinn vinnur verður útgangan að veruleika á næstu tveimur mánuðum (eða því lofar flokkurinn allavega). Ef flokknum mistekst að ná meirihluta, verður útgöngunni frestað um óákveðinn tíma. Mjög ólíklegt er að Verkamannaflokkurinn hljóti meirihluta þingmanna, og komi til þess að Íhaldsflokkurinn tapi er líklegast að Verkamannaflokkurinn gangi til samninga við aðra flokka um einhvers konar minnihlutastjórn. Stefna Verkamannaflokksins er að semja upp á nýtt við Evrópusambandið og setja samninginn í þjóðaratkvæði, sem Jeremy Corbyn segi að taki aðeins hálft ár. Þetta yrði hann hinsvegar að semja um við Skoska þjóðarflokkinn og Frjálslynda demókrata. Hvort það takist er erfitt að segja og niðurstaðan gæti allt eins orðið aðrar þingkosningar snemma á næsta ári.

Sprungurnar í Rauða múrnum segja þó ekki allt um gengi Verkamannaflokksins. Fyrir aðeins nokkrum vikum stefndi í sögulegt afhroð hans, en nú, viku fyrir kosningar eru kannanir tvíræðar. Dregið hefur saman milli stóru flokkanna tveggja, Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins. Íhaldsflokkurinn hefur dalað lítillega á meðan Verkamannaflokkurinn hefur sótt í sig veðrið. Akkílesarhæll Íhaldsflokksins gæti nefnilega verið hans eigin kjósendur sem áður voru tryggir, þ.e. þeir Íhaldsmenn sem styðja áframhaldandi veru í Evrópusambandinu og hugnast ekki harðlínustefna Johnsons. Þessir kjósendur gætu setið heima eða kosið annað en Íhaldsflokkinn. Það er því ekki hægt að ganga neinu vísu og niðurstaðan gæti allt eins orðið þing án starfhæfs meirihluta (e. hung parliament).

Heilbrigðiskerfið selt Trump

Forysta Verkamannaflokksins hefur reynt hvað hún getur að leggja áherslu á önnur mál en Brexit, þá aðallega heilbrigðiskerfið, þjóðnýtingu lestakerfisins og afnám skólagjalda í háskólum. Stóra kosningabomba flokksins átti án efa að vera uppljóstrun Jeremy Corbyns á leyniskjölum sem á að hafa verið lekið úr samningaviðræðum ríkisstjórnar Johnsons við Bandaríkjastjórn um fríverslun eftir Brexit. Samkvæmt þeim skjölum er breska heilbrigðiskerfið á borðinu í samningaviðræðunum, og Verkamannaflokkurinn hefur haldið því fram að ekki aðeins muni Johnson einkavæða heilbrigðiskerfið heldur selja Donald Trump það í bútum. Uppljóstranirnar hafa ekki farið eins hátt og Corbyn ætlaði sér, og frekar má segja að hann hafi hlaupið á sig og lítið mark verið tekið á ásökununum. Afleiðingarnar virðast frekar vera þær að nú grassera samsæriskenningar á netinu um að Corbyn sé í slagtogi við rússneska hakkara sem hafi stolið gögnunum. Nokkuð stór hluti kjósenda virðist vera tilbúinn að trúa flestu illu upp á Corbyn, og það að hann sé föðurlandssvikari er því ekki svo langsótt í eyrum margra, enda mælast vinsældir hans í algjöru lágmarki.

Gyðingahatur og ylvolgt Brexit

Það er ekki bara vandræðagangurinn í kringum uppljóstrun þessara leyniskjala sem hafa komið Corbyn í koll. Honum hefur ekki tekist að verjast ásökunum um gyðingahatur í Verkamannaflokknum með sannfærandi hætti, og hefur þótt koma illa út í viðtölum að undanförnu vegna þessa. Corbyn hefur einnig átt í vandræðum með að verja stefnu Verkamannaflokksins í Brexit, sem kveður á um að semja upp á nýtt við Evrópusambandið og boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem valkostirnir yrðu fyrirliggjandi samningur eða áframhaldandi vera. Tímalínan sem Verkamannaflokkurinn hefur lagt fram fyrir verkið hefur þótt óraunhæf og harðir útgöngusinnar óttast að samningur Corbyn yrði of „mjúkur“, í þeim skilningi að Bretar yrði enn of háðir Evrópusambandinu. Valkostnirnir í þessari seinni þjóðaratkvæðagreiðslu yrði því ylvolg útganga með einhvers konar „EES-samning“ eða áframhaldandi vera. Þá hefur Corbyn verið gagnrýndur fyrir að neita að gefa upp hvort hann myndi styðja útgöngu eða áframhaldandi veru ef til þessarar þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Að endingu þykir ekki sami neisti í Corbyn nú og í kosningabaráttunni 2017, þar sem hann vann frækinn varnarsigur og var raunar ekki svo langt frá því að velta Theresu May úr sessi.

Johnson hefur líka fatast flugið

Johnson hefur einnig fengið sinn skerf af gagnrýni. Ýmis óviðurkvæmileg ummæli hans í gegnum tíðina hafa verið rifjuð upp. Hann hefur sagt börn einstæðra mæðra vera illa upp alin, fáfróð og óskilgetin, samkynhneigða karlmenn vera tank-topped bumboys (illþýðanlegt á íslensku) og ummæli hans um svart fólk er líklega best að sleppa að hafa eftir, en eru mest í ætt við eitthvað sem gæti hafa komið fram í sögunni um Svarta Sambó. Johnson virðist þó ætla að sleppa nokkuð billega og kjósendur ekki erfa þetta sérstaklega við hann. Hans helsta afsökun er sú að hann hafi jú skrifað svo mikið í gegnum tíðina að eflaust megi þar finna sitthvað misjafnt.

Þá hefði leiðtogaráðstefna NATO-ríkjanna, sem fór fram í London í vikunni, átt að vera tækifæri fyrir Johnson til að sanna sig sem heimsleiðtoga. Því tækifæri glutraði hann niður í vandræðagangi í kringum Donald Trump Bandaríkjaforseta. Nærvera Trumps þótti óþægileg fyrir Johnson. Trump hefur áður farið fögrum orðum um sinn breska kollega, sem er vont fyrir þann síðar nefnda því Trump er fádæma óvinsæll í Bretlandi. Þá hefur Johnson reynt að fjarlægja sig frá Trump vegna meintrar sölu breska heilbrigðiskerfisins til bandarískra fjárfesta. Ráðstefnan var svo kórónuð með myndbandi sem náðist af Johnson á tali við Justin Trudeau, Emmanuel Macron og fleiri, þar sem viðstaddir virtust gera stólpagrín af forsetanum. Trump móðgaðist, flýtti heimför sinni og fór í fússi. Í staðinn fyrir að koma fram sem statesman og landsfaðir, virkaði Johnson óöruggur og jafnvel svolítið vandræðalegur í þessu havaríi.

Í skugga árásarinnar á London Bridge

Þá eru glæpir og öryggi almennings ofar í huga kjósenda en árið 2017. Hnífstunguárásin á London Bridge í síðustu viku mun síst draga úr þeim áhyggjum. Þrátt fyrir að foreldrar eins fórnarlambanna hafi beðið stjórnmálamenn um að nýta sér ekki þessi voðaverk í pólitískum tilgangi, þá hafa stjórnmálamenn allra flokka gert sér mat úr þeim. Ásakanir ganga á milli, Johnson segir að Corbyn vilji fara mjúkum höndum um glæpamenn, á meðan Verkamannaflokkurinn sakar Íhaldsmenn um öfgafulla refsigleði. Árásarmaðurinn var dæmur hryðjuverkamaður, sem var undir eftirliti lögreglu og hafði fengið bæjarleyfi til að sækja ráðstefnu um endurhæfingu fanga í London, en þangað mátti hann annars ekki fara því hann var enn álitinn hættulegur. Það er erfitt að segja til um á þessum tímapunkti hvort árásin muni hafa afgerandi áhrif á kosningarnar, það er ómögulegt að greina áhrif árásarinnar frá öllu öðru sem er að eiga sér stað í orrahríðinni sem stendur yfir. Þó er gott að hafa í huga að stjórnmálasálfræðin segir okkur að ótti og hræðsla, eðlilegar tilfinningar sem kvikna upp hjá almenningi í kjölfar hryðjuverkaárása, færi fólk til hægri frekar en vinstri (sjá t.d. hér og hér).

Sannarlega sögulegar kosningar?

Það er því enn talsverð spenna í kosningabaráttunni og allt getur gerst. Það er oft sagt um hverjar kosningar sem standa fyrir dyrum að þær séu sögulegar og úrslit þeirra sérstaklega mikilvæg. Það má þó færa sannfærandi rök fyrir því að kosningarnar í ár séu sannarlega sögulegar. Þær gætu það þýtt varanlega breytingu á landslagi breskra stjórnmála ef Íhaldsflokkurinn nær nýjum landvinningum í Norður-Englandi, sem og að Brexit verði loksins að raunveruleika. Þá eru hinsvegar enn eftir stórmál, eins og fríverslun við Evrópusambandið, útfærsla landamæranna á Norður-Írlandi, sem og samband Bretlands við umheiminn allan.

Brexit og sjálfsmynd þjóðar

Búið ykkur undir Brexit – í breskum rigningarsudda. BBC.

Búið ykkur undir Brexit. Út um allt land má sjá skilti með þessari áletrun. Brexit ætti raunar þegar að vera komið í gegn, og ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Þing hefur verið rofið, kosningabaráttan til neðri deildar breska þingsins er hafin og margir frambjóðendur reyna hvað þeir geta að tala um brýn þjóðfélagsmál, eins og heilbrigðiskerfið, húsnæðismál og aðgengi að menntun. Það er hinsvegar aðeins eitt mál á dagskrá: Brexit, útgangan úr Evrópusambandinu. Einn maður umfram aðra hefur orðið andlit þessa ferlis, Boris Johnson, hinn litríki forsætisráðherra, sem mun jafnframt hafa verið vinsælasti hrekkjavökubúningur ársins. Hann var einn af forsprökkum útgöngusinna í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016 og hefur nú fengið þann kaleik í hendurnar að leiða Breta út úr Evrópusambandinu. Í þessari grein fer ég yfir stöðuna í Brexit, pólítíska aðferðafræði Johnsons, stöðu Íhaldsflokksins og síðast en ekki síst hvernig Brexit hefur orðið hluti af sjálfsmynd bresku þjóðarinnar.

Sköpun Borisar

Forsætisráðherra Bretlands eða karakter úr Little Britain? Business Insider.

Boris Johnson er út af fyrir sig áhugaverður karakter. Sá árangur sem hann hefur náð á stjórnmálasviðinu hvílir fyrst og fremst á því hvernig honum hefur tekist, með nokkuð klókum hætti, að verða helsti talsmaður and-elítismans í Bretlandi, þrátt fyrir að vera sjálfur kominn af miklu forréttindafólki og menntaður í Eaton og Oxford. Um þetta misræmi er hann meðvitaður og hefur unnið að eigin persónusköpun frá því að hann var ungur maður.

Eins og margir stjórnmálamenn gera reynir Johnson að brjóta í bága við staðalímyndina sem almenningur hefur af stjórnmálamönnum. Þann leik reyna margir stjórnmálamenn að leika, en það gerir hann með allt öðrum hætti en til dæmis Donald Trump, kollegi hans hinu megin við Atlantshafið. Johnson gerir út á það að vera óformlegur, utan við sig, tuskulega til hafður, með hárið úfið og illa girtur. Eitt af hans aðalsmerkjum er jafnframt að vera ekki bara „spontant“ heldur að virka hreint og beint út óundirbúinn.

Þessi trúðslæti eru að sjálfsögðu útplönuð. Til að mynda hefur hann orðið uppvís af því að vera með ákveðna „rútínu“ þegar kemur að því að flytja hátíðarræður eða ávörp. Hann mætir seint, spyr skipuleggjendur hvaða viðburður standi yfir og um hvað hann eigi að tala, hripar niður drög að ræðu á servíettu á hálfri mínútu, fer í pontu og byrjar á því að snúa sér við með mjög áberandi hætti til að sjá á borða fyrir ofan sviðið hvar hann sé eiginlega. Við tekur svo ræða sem á að líta út fyrir að vera samin á staðnum en hefur að öllum líkindum verið flutt áður.

Líkur hafa verið leiddar að því að Brexit sjálft sé einmitt ein af afleiðingum þeirra leikrita sem Johnson hefur sett á svið. Frægt er að í upphafi kosningabaráttunnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2016 hélt hann sig til hlés og skrifaði tvær ólíkar greinar um afstöðu sína til aðildar að Evrópusambandinu, eina á móti og aðra fylgjandi. Síðan bar hann þessar tvær greinar saman og mat hvor væri pólítískt fýsilegri og líklegri til árangurs. Ekki þarf að tíunda hvor greinin varð fyrir valinu og birtist í Telegraph. Þáttur Johnsons í kosningabaráttunni 2016 var veigamikill, og ekki víst að útgöngusinnar hefðu náð sama árangri ef hans hefði ekki notið við.

Okkur getur öllum reynst erfitt gera upp við okkur hvaða ákvörðun skuli taka. Sumar ákvarðanir eru þó afdrifaríkari en aðrar. BBC.

Leiðtogastíll and-stjórnmálamannsins

Félagssálfræðingurinn Stephen Reicher hefur sett fram áhugaverða greiningu á Johnson. Hann segir að til þess að skilja vinsældir Borisar Johnson þurfi í raun að endurskoða viðtekinn hugsunarhátt í leiðtogafræðum. Johnson sé ekki bara að brjóta reglur og hefðir, heldur reglur og hefðir sem eiga við um tiltekinn hóp, stjórnmálamenn, sem sé algjörlega aðgreindur frá „okkur“ sem almenningi. Með því býr hann til mjög skörp skil á milli þessara tveggja hópa; stjórnmálamanna og almennings. Hegðun hans á svo að sýna rækilega fram á að hann flokkist ekki með stjórnmálamönnum, heldur með almenningi. Gallar hans og breyskleiki undirstrika það að hann sé einn af „okkur“ og geti því talað fyrir hönd almennings mun frekar en hefðbundnir stjórnmálamenn.

Meira að segja það nafn sem hann kýs að nota er viðleitni til þess að gera sig alþýðlegri. Hann heitir raunar hinu mjög svo aristókratíska nafni Alexander Boris de Pfeffel Johnson. Millinafnið mun hann hafa tekið upp þegar hann var í Eaton, hvar persónusköpun hans sem ensks sérvitrings mun hafa hafist. Boris er einfaldlega nær „okkur“ heldur en Alexander de Pfeffel.

Það að skilgreina sig sem „and-stjórnmálamann“ sem standi með almenningi gegn stjórnmálaelítunni er þó vandkvæðum háð. Þegar þú hlýtur framgang í embætti og verður leiðtogi bæði flokks og lands þarft þú nefnilega að geta unnið með sömu stjórnmálamönnum og þú hefur eytt tíma og orku í að skilgreina þig gegn. Þá ert þú orðinn utanaðkomandi (e. out-group, „other“) í hópi samstarfsfólks þíns. Við það myndast því þversagnarkennd staða.

Stephen Reicher segir að í þessari þversögn hafi leiðtogar líkt og Johnson um tvennt að velja. Annað hvort brjóti þeir andstæðinga sína á bak aftur með hörku og hverfi til valdboðsstefnu (e. authoritarianism), ellegar mistakist þeim ætlunarverk sitt og verði neyddir til uppgjafar. Með valdboðsstefnu er átt við undirgefni gagnvart yfirvaldi, virðingu fyrir siðum og venjum og refsigleði gagnvart þeim sem ekki fylgja þeim eða beygja sig ekki undir stjórnvöld. Johnson hefur tekist hið fyrrnefnda og er á hraðleið til valdboðsstefnu og harðrar hægri stefnu. Eftirminnilegasta dæmi þess er eftir vill sú ákvörðun hans að reka 21 þingmann úr Íhaldsflokknum eftir að þau höfðu óhlýðnast flokkslínunni í atkvæðagreiðslu tengdri Brexit samningi Johnsons, eitthvað sem forveri hans, Theresa May, hafði mörg tækifæri til en gerði aldrei.

Raunar bendir margt til þess að Bretland sé á leið í átt til aukinnar valdboðsstefnu og að í landinu séu nú kjör aðstæður fyrir hana til að vaxa og dafna. Fólk hallast frekar til valdboðs og „sterkra“ leiðtoga þegar samfélagið stendur frammi fyrir meiriháttar vandamálum sem erfitt er að hafa stjórn á (sjá t.d. hér). Brexit hefur að mörgu leyti skapað slíkt ástand, því óvissan um afleiðingar útgöngu er mikil og glundroði hefur skapast bæði í stjórnmálunum sem og í samfélaginu sem er að rifna í sundur úr ágreiningi. Sögulegt dæmi má taka af því að slíkar aðstæður ríktu einmitt í Þýskalandi á árunum fyrir valdatöku Hitlers, þar sem nasistar grófu markvisst undan stöðugleika í þjóðfélaginu á sama tíma og þau boðuðu styrka stjórn og stöðugleika.

Í því pólitíska öngþveiti sem ríkir í breskum stjórnmálum boðar Johnson engar málamiðlanir til að lægja öldurnar og ná sáttum, heldur harðlínu – „do or die, come what may“. Skilaboðin í þeirri harðlínu eru að nú muni Bretland taka aftur stjórnina á sínum innanríkismálum, með aukinni áherslu á yfirráð yfir landamærum og strangari innflytjendalöggjöf. Stöðugleikinn sé því rétt handan við hornið.

Það liggur hinsvegar í augum uppi að harðlínustefna Johnsons er líka tilraun til þess að halda kjósendum við Íhaldsflokkinn og koma í veg fyrir að þeir færi sig til Brexit flokks Nigel Farage. Það virðist hafa tekist vel hingað til, enda hefur Íhaldsflokkurinn nú talsvert forskot í könnunum og Brexit flokkurinn varla hálfdrættingur miðað við þau úrslit sem hann hlaut í kosningunum til Evrópuþingsins í maí.

Þó harðlínustefnan hafi mögulega gagnast í því að halda Brexit flokknum í skefjum er Íhaldsflokkurinn kominn svo langt til hægri að varla er lengur hægt að tala um hann sem breiðfylkingu (e. broad church) líkt og flokkurinn hefur gefið sig út fyrir að vera. Það kristallast í óvenju harkalegri ræðu innanríkisráðherrans Priti Patel á landsfundi flokksins í haust. Hún er sjálf af indverskum uppruna og nýtir sér þá sérstöðu sína á meðal breskra stjórnmálamanna til að réttlæta mjög svo íhaldssama stefnu sína í innflytjendamálum. Hún, sem dóttir innflytjenda, muni ekki sitja undir því „að vera skóluð til af frjálslyndum elítistum í norðurhluta London“, eins og hún orðar það sjálf. Hún segir það sé sérstakt markmið sitt að binda endi á frjálsa för fólks, í eitt skipti fyrir öll, og taka í staðinn upp innflytjendakerfi sem byggir á stigum, þar sem aðeins hin „klárustu og bestu“ verði handvalin. Brot úr ræðu hennar má sjá hér að neðan.

Flokkshollusta í rénun

Johnson hefur hinsvegar haft ærnar ástæður til þess að hafa áhyggjur yfir stöðu Íhaldsflokksins gagnvart Brexit flokknum, og Brexit málinu í heild sinni. Í sumar birtist til að mynda skoðanakönnun á meðal flokksbundinna íhaldsmanna þar sem niðurstaðan var skýr; Brexit er ofar öllu í þeirra huga og flokksmenn tilbúnir til þess að fórna öllu öðru til þess að útgangan eigi sér stað. Könnunin sýndi að Íhaldsmenn voru reiðubúnir til þess að hætta á að konungsdæmið liðaðist í sundur, að breskur efnahagur yrði fyrir miklum skakkaföllum og meira að segja á endalok Íhaldsflokksins, til þess að útgangan gæti átt sér stað.

Íhaldsmenn eru reiðubúnir til þess að láta flokkinn lönd og leið til að koma Brexit í gegn. YouGov.

Johnson veit sem er að flokkshollusta er á fallanda fæti í Bretlandi. Almennt séð eru kjósendur þó tilbúnir til að líta fram hjá glappaskotum eða jafnvel svikum flokka sinna og leiðtoga þeirra. Kjör Donalds Trumps er ef til vill eftirminnilegasta dæmið um það í seinni tíð, þar sem íhaldssamir og kristnir hópar kusu hann í stórum stíl þrátt fyrir óviðurkvæmilegt tal hans um að grípa í kynfæri kvenna, fjöldan allan af hjónaböndum og almennt ókristinlegt líferni. Þolinmæðin virðist hinsvegar vera á þrotum hjá breskum Íhaldsmönnum og útgöngusinnum. Flokkshollusta hefur vikið fyrir trú á málstaðinn, ef svo mætti að orði komast.

Brexit sem hluti af sjálfsmynd þjóðar

Brexit undirstrikar nefnilega breyttan veruleika í stjórnmálum á heimsvísu. Hefðbundnir stjórnmálaflokkar eru ekki lengur jafn mikilvægur hluti sjálfsmyndar þorra fólks líkt og þeir voru á árum áður. Áhugaverð skýrsla var gefin út í sumar þar sem greint var frá því að Bretum sem samsami sig sterklega með stjórnmálaflokki hafi fækkað úr tæpum helmingi þjóðarinnar á sjöunda áratugnum niður í aðeins 9% árið 2018. Á sama tíma samsami 44% kjósenda sig með sinni hlið í Brexit málinu; útgöngu eða áframhaldandi aðild (Leave og Remain). Þessum hópum líkar svo einstaklega illa við hvorn annan. Kjósendur hafa því fjarlægst stjórnmálaflokka en Leave og Remain hafa fyllt það tómarúm og eru orðin sjálfsmyndir (e. identities) út af fyrir sig.

Í almennri umræðu hefur verið rætt mikið um aukna skautun, eða pólaríseringu, í stjórnmálum; það er gliðnun stjórnmálaviðhorfa í átt að öfgum í báðar áttir (t.d. hægri og vinstri), svo færri mætast í miðjunni. Stjórnmálafræðingurinn Lillian Mason gaf nýlega út áhugaverða bók, Uncivil Agreement: How Politics Became Our Identity, um skautun í Bandaríkjunum. Skautun hefur náð slíkum hæðum þar í landi að varla nokkur samræðugrundvöllur er á milli Demókrata og Repúblíkana. Þessir tveir hópar hafa gríðarlega neikvætt viðhorf til hvors annars, líta á hvorn annan sem öfgamenn og vilja ekki einu sinni búa nálægt hvorum öðrum. Líkt og kunnugt er þá er enn uppi mikill ágreiningur um afstöðu til grundvallarmála, eins og réttindi hinsegin fólks, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, skotvopnalöggjöfina, og svo framvegis.

Við fyrstu sýn mætti ætla að staðan sé svipuð í Bretlandi og skautun sé í hæstu hæðum. Skipting fólks í Leave og Remain á líklega bara eftir að harðna og halda áfram eftir útgönguna. Það athyglisverða við bresk stjórnmál er þó að á meðan útganga og áframhaldandi aðild skipta fólki í lið, þá virðist vera að draga saman með Bretum í öðrum málum. Innflytjendamál voru stórmál í aðdraganda Brexit atkvæðagreiðslunnar og útgöngusinnar höfðu neikvæðari viðhorf til innflytjenda en stuðningfólk áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Nú hefur heldur dregið saman með hópunum og Bretar eru nú heilt yfir jákvæðari í garð innflytjenda en fyrir atkvæðagreiðsluna. Þetta á einnig við um viðhorf til heilbrigðisþjónustu, velferðarmála, réttinda hinsegin fólks og svo framvegis. Með öðrum orðum eru Bretar meira sammála en áður um ýmis einstök mál, og hafa færst í frjálslyndisátt, þó stóru átakalínurnar séu vissulega útganga eða áframhaldandi aðild.

Sambandsslit eru alltaf erfið, sama hvort það er á milli fólks eða landa. Independent.

Ofbeldi og harka í loftinu

Minni skautun og meiri sátt í einstaka málum þarf þó ekki endilega að þýða að stjórnmálin og þjóðfélagsumræðan séu að verða uppbyggilegri, hvað þá vinalegri. Bresk þjóðfélagsumræða hefur alltaf verið sérstaklega óvægin og harkaleg, og þessi nýja afstaða sem skiptir fólki í hópa, Leave og Remain, virðist aðeins vera að harðna og fólk reiðubúið til að ganga langt til að ná sínu fram. Nýleg könnun leiddi til dæmis í ljós að fólki finnist ofbeldi gegn þingmönnum vera „þess virði“ ef það þýddi að þeirra málstaður hlyti sigur í Brexit deilunni. Þetta átti jafnt við um útgöngusinna og stuðningsfólk áframhaldandi veru.

Þetta er í takti við þann málflutning sem Johnson og aðrir forsprakkar Íhaldsmanna hafa haft uppi. Johnson kallaði hið svokallaða Benn Act, lög sem samþykkt voru í neðri deild breska þingsins sem meinuðu útgöngu án samnings, ítrekað surrender bill, eða uppgjafarfrumvarp. Hann var gagnrýndur, bæði af samflokksmönnum og stjórnarandstöðunni, fyrir að ýja með að því að þau sem væru á móti Brexit séu föðurlandssvikarar og þjóðníðingar, og þar með hvetja til ofbeldis gegn þeim. Johnson neitaði hinsvegar að draga í land eða malda í móinn, á sama tíma og hótanir í garð þingmanna eru nú tvöfalt fleiri en fyrir Brexit atkvæðagreiðsluna.

Boris Johnson af öllum er meðvitaður um mátt orða og orðræðu, enda starfaði hann lengi sem blaðamaður og var pistlahöfundur í Daily Telegraph til margra ára. Málflutningur hans vekur nefnilega hugrenningartengsl hjá mörgum við morð Jo Cox, þingmanns Verkamannaflokkins sem var myrt í aðdraganda Brexit atkvæðagreiðslunnar af öfga-hægrimanni og útgöngusinna. Það fór því fyrir brjóstið á mörgum þegar hann ekki bara neitaði að biðjast afsökunar fyrir notkun á orðunum „svik“ og „uppgjöf“, heldur bætti í og sagði að besta leiðin til að heiðra minningu Jo Cox væri að koma Brexit í gegn.

Johnson er ekki allra. The Herald.

Það er þó ekki bara ofbeldi yfirvofandi yfir þingmönnum í Westminster, því skærur hafa einnig staðið yfir á Norður-Írlandi. Herskráir lýðveldissinnar hafa staðið fyrir árásum á lögreglu og sambandssinnar haldið fánabrennur, þar sem fáni írska lýðveldisins fær að brenna á björtu báli. Síðsumars var skjölum frá stjórnvöldum lekið til fjölmiðla sem bentu til þess að ef Bretland færi úr Evrópusambandinu án samnings þýddi það fulla landamæragæslu (e. hard border) á milli landanna tveggja, sem hefði án efa verið olía á þann eld sem enn kraumar undirniðri á Írlandi. Áhugaleysi á málefnum þess minnsta og fámennasta af löndum fjórum sem mynda Sameinaða konungsdæmið hefur ekki bara ríkt í Brexit umræðunni, heldur er í raun í takt við lítinn áhuga Englendinga á málefnum Norður-Írlands í gegnum tíðina. Áhugaleysið sést vel í því að árásir á lögreglu, sem alla jafna þykja alvarlegt mál, hafa ekki hlotið nokkra athygli sem um munar í fjölmiðlum.

Landamæragæslu á Norður-Írlandi mótmælt. BBC.

Munu Bretar taka aftur stjórnina?

Kosningabaráttan fyrir kosningarnar 12. desember er nú hafin og það verður að segjast eins og er að nokkuð líklegt er að Íhaldsflokkurinn vinni þær með jafn sannfærandi hætti og mögulegt er í því ástandi sem ríkir, það er annað hvort með litlum meirihluta á þingi eða yfirburðum þegar kemur að þingmannatölu, en án meirihluta. Harðlínustefna Johnson hefur í raun tryggt það að þrátt fyrir dvínandi hollustu við stjórnmálaflokka heldur Íhaldsflokkurinn sjó með því að nýta sér það hve mikilvægt Brexit er orðið sem hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Útganga án samnings er í raun orðin stefna flokksins og stórum hluta þjóðarinnar hugnast það ágætlega, þrátt fyrir afleiðingarnar fyrir efnahagslífið og öryggi breskra borgara á Norður-Írlandi.

Síðan í haust hefur Johnson hengt sig með ansi afgerandi hætti í dagsetningunni 31. október og gerði hana að nokkurs konar slagorði. Honum tókst ekki að standa við loforðið um útgöngu þann daginn, en eins og staðan er núna virðist honum hafa tekist að sannfæra meirihluta útgöngusinna um að hann hafi af heilindum gert allt sem í hans valdi standi til þess að af útgöngunni verði. Leiðtogastíll hans sem and-stjórnmálamaður, sem er öðruvísi en hinir, eykur trúverðugleika hans sem fulltrúa meirihlutans sem vildi útgöngu árið 2016, enda tilheyrði mikill meirihluti hefðbundinna stjórnmálamanna hinum hópnum, sem studdi áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu.

Þó erfitt sé að sjá fyrir sér annað en að af útgöngunni verði á næsta ári vilja stjórnarandstöðuflokkarnir, Verkamannaflokkurinn, Frjálslyndir demókratar og Skoski þjóðarflokkurinn, aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Valmöguleikarnir í þeirri atkvæðagreiðslu yrðu þá fullkláraður útgöngusamningur annars vegar og áframhaldandi aðild hinsvegar. Hvort sem verður ofan á, útganga með einhvers konar Johnson-samningi eða önnur atkvæðagreiðsla, mun það hleypa illu blóði í þessa tvo hópa og Brexit öðlast framhaldslíf um ókomin ár. Til lengri tíma litið hlýtur það að verða einn af lærdómum Brexit ferlisins að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið óheppileg leið til þess að leysa flókin ágreiningsmál. Það sést vel á tilurð Leave og Remain sem sérstakra sjálfsmynda, sem eru orðin sterkari en aðild stjórnmálaflokkum, sem í áratugi skiptu fólki í lið en gera það aðeins að litlu leyti nú.

Útgangan úr Evrópusambandinu hefur sett bresk stjórnmál á „hold“ í rúmlega þrjú ár og erfitt er að sjá að önnur mál komist á dagskrá fljótlega. Brexit, tilraunin til að „taka aftur stjórnina“ á eigin málum virðist ætla að renna út í sandinn, því frekar má segja að Brexit hafi öðlast sjálfstætt líf og þvert á móti tekið stjórnina af Bretum.

Trump og stjórnmál ósanngirninnar

Make America Great Again er líklega eitt þekktasta pólitíska slagorð samtímans, en mun nýtt slagorð byggt á grunni hins gamla skila Trump sama árangri?


Hugmyndin að þessum pistli kviknaði í vor þegar ég sat fyrirlestur hjá bandarískum fræðimanni á sviði lýðheilsu. Fyrirlesturinn var áhugaverður og ekki mikið meira um það að segja, en eitt hnaut ég um. Án þess að fara í smáatriðum út í efni fyrirlestrarins þá fjallaði hann meðal annars um áhrif mataræðis á greind. Mikil neysla unninna kjötvara, gosdrykkja og annarrar óhollustu á að hafa neikvæð áhrif á greindarfar, og það sem meira er, þá gæti greindarfar bandarísku þjóðarinnar allrar verið farið að láta undan síga af þessum sökum, vildi fyrirlesarinn meina. Notaði hann kjör Donald Trumps árið 2016 sem dæmi því til stuðnings. Rökleiðslan var því sú að slæmt mataræði hafi valdið greindartapi sem síðan stuðlaði að kjöri Trumps. Hann bætti við:


„I mean, who would fall for something as shallow as Make America Great Again? It doesn’t even mean anything“.


Slagorðið væri því svo grunnhyggið að ótrúlegt er að fólk hafi fallið fyrir því. Innihaldið er ekkert. Ég staldraði við þessi orð, og þau hafa verið mér hugleikin síðan. Þau voru sjálfsagt sögð í hálfkæringi, en samlíkingin lýsir engu að síður nokkuð kaldrifjaðri nálgun á mannshugann, manninn sem tilfinningaveru í flóknu samfélagi með fortíð og sögu. Vissulega er það rétt að „Make America Great Again“ þýðir strangt til tekið ekki neitt. Hvenær Bandaríkin voru síðast stórkostleg og hvað fellst yfir höfuð í því að land sé stórkostlegt eru hinsvegar ekki spurningar sem verið er að leitast svara við. Góð pólitísk slagorð tala bæði til okkar persónulega sem og inn í sameiginlegan reynsluheim þjóðar.

hið persónulega – fortíðarþrá

Það var það sem Trump gerði svo snilldarlega með slagorðinu „Make America Great Again“. Hann vakti upp nostalgíu – fortíðarþrá eftir eldri og betri tímum. Fortíðarþrá eru bjargráð – leið til þess að verjast áföllum, streitu og krísum dagsins.[i] Að minnast góðra hluta hefur jákvæð áhrif á líðan og sjálfstraust okkar. Við bókstaflega ornum okkur við minningar fortíðar. Minningar eru hinsvegar ekki fasti, þær taka stöðugum breytingum og eru því ekki alltaf áreiðanlegar. Tíminn líður, minningarnar skekkjast og teygjast. Eftir því sem tímanum vindur fram ýkjum við hlut jákvæðra tilfinninga og drögum úr hlut neikvæðra tilfinninga í minningunum. Gjarnan lítum við um öxl og minnumst tiltekinna tímabila í fortíð okkar með sérstakri hlýju sé miðað við nútímann, en ef við köfum dýpra rennur upp fyrir okkur að á þeim tíma tókumst við á við aðrar áskoranir sem gerðu hversdaginn erfiðan. Skynsemin á því til að víkja fyrir bjöguðu, huglægu (en mjög svo mannlegu) mati. Þetta nýtir Trump sér í sinni orðræðu og vísar til gullaldar Bandaríkjanna og ameríska draumsins á 20. öld og segir samanburðinn við daginn í dag vondan.

slagorð sem andsvar

Meint andlát ameríska draumsins er mikilvægt í þessu samhengi. Félagssálfræðingurinn Muzafer Sherif benti á í grein frá árinu 1937[ii] á að pólitísk slagorð virki best þegar þau eru andsvar við ástandi í þjóðfélaginu. Í frönsku byltingunni var viðkvæðið „Frelsi, jafnrétti, bræðralag“ gegn harðstjórn, kúgun og ójöfnuði. Í Rússlandi lofuðu Bolsévíkar friði, landi og brauði í stríðshrjáðu landi þar sem ríkti hungursneyð og bændaánauð. Nasistar vildu eitt ríki, eina þjóð og einn foringja sem svar við upplausnarástandi og lýðræði sem þeir töldu meingallað. Barack Obama boðaði von í landi sem var í efnahagskreppu og átti í tveimur stríðum sem gengu á afturfótunum. „Take Back Control“ fangaði vel tilfinningar margra Breta í garð Evrópusambandsins, og náði mun meira flugi en „Britain Stronger in Europe“ í Brexit-kosningunni 2016. „Ameríski draumurinn er dauður, en ég ætla að gera hann stærri og sterkari en hann var nokkurn tímann áður,“ segir Trump áður en hann öskrar sitt víðfræga slagorð. [iii]

stjórnmál ósanngirninnar

„Make America Great Again“ boðar viðspyrnu gegn meintri hnignun Bandaríkjanna. Trump byrjaði gjarnan ræður sínar í kosningabaráttunni 2016 á því að leggja áherslu á bágborið ástand landsins miðað við það sem áður var [iv]. Hann nuddaði salti í sárið og lét áheyrendur hreinlega skammast sín yfir stöðunni. Máttur og megin landsins væri ekki aðeins á fallanda fæti heldur væri landið aðhlátursefni í augum annarra þjóða. Ástandið sé óvinaríkjum (Mexíkó, Kína o.s.frv.) og svörtum sauðum innanlands (elítunni) að kenna. Hann leiddi síðan skömmina í þann farveg að hún breyttist í reiði gagnvart óvinum – innan og utanlands – en lofaði því að Bandaríkin gætu aftur fyllst stolti og öryggistilfinningu næði hann kjöri. Ræðurnar endaði hann gjarnan á „Make America Great Again“. Skilaboðin um niðurlægingu landsins og ósanngirni heimsins í garð Bandaríkjanna hafa því orðið samofa slagorðinu.

Rauði þráðurinn hjá Trump hvort sem litið er til slagorða, auglýsinga eða ræða er að Bandaríkin eigi betra skilið, að ekki sé tekið mark á þeim á alþjóðavettvangi og að aðrar þjóðir sýni þeim ekki tilhlýðilega virðingu. Hann spilar því inn á sálfræðilega ferla sem ég hef kosið að þýða sem hóplæga sjálfsdýrkun (e. collective narcissism), sem er hugtak sem hefur verið að ryðja sér rúms innan stjórnmála- og félagssálfræði undanfarinn áratug. Hóplæg sjálfsdýrkun er þegar fólk dýrkar (verður narsissískt) hóp sem það tilheyrir, t.a.m. þjóð.[v] Hóplægir sjálfsdýrkendur trúa því að þeirra eigin hópur sé einstakur og eigi skilið sérstaka meðferð, en finnst jafnframt að yfirburðirnir séu ekki viðurkenndir af öðrum hópum. Hóplægir sjálfsdýrkendur eru fordómafullir og árásargjarnir í garð hópa sem eru taldir hafa unnið gegn manns eigin hópi, enda þreytist Trump seint á því að minna á ósanngirni Kínverja og Mexíkóa í garð Bandaríkjamanna. Hóplægir sjálfsdýrkendur eru móðgunargjarnir fyrir hönd hópsins síns og bregðast hart við því þegar ágæti hópsins er dregið í efa. Rannsóknir sýna að bandarísk hóplæg sjálfsdýrkun er einn sterkasti forspárþáttur þess að hafa kosið Trump [vi]  og hefur verið tengd við stuðning við popúlisma í öðrum löndum, til að mynda Bretlandi [vii] og Póllandi [viii]. Þá má telja líklegt að hóplæg sjálfsdýrkun hafi átt sinn þátt í uppgangi nasismans í Þýskalandi á millistríðsárunum.

föðurlandsást dugði ekki til

Hóplæg sjálfsdýrkun fellur undir regnhlíf þess sem vísað hefur verið til sem óöruggrar samsömunar með hópum (e. insecure identification). Hillary Clinton, líkt og flestir sem ætla sér að ná langt í bandarískum stjórnmálum, reyndi líka að slá á þjóðlega strengi, en þó með öðrum hætti en Trump. Clinton tók annan pól í hæðina og hennar málflutningur er í ætt við örugga samsömun (e. secure identification), þ.e. jákvæðni í garð eigin lands sem veltur ekki á viðurkenningu annarra. Um Trump hafði hún meðal annars að segja:

„If you’re looking for someone to say what is wrong with America, I’m not your candidate. I think there is more right than wrong. I don’t think we have to make America great. I think we have to make America greater.“ [ix]

Clinton reyndi því að höfða til föðurlandsástar (e. patriotism) sem er uppbyggileg, frekar en eyðileggjandi líkt og hóplæg sjálfsdýrkun Trumps. Meira sé gott við Bandaríkin en vont og landsmenn eigi að vinna að því að gera landið enn betra. Slíkur málflutningur mátti síns þó lítils í því andrúmslofti sem Trump tókst að skapa. Hóplæg sjálfsdýrkun Trumps féll í frjórri jarðveg en varkár og hófstillt föðurlandsást Clinton.

hefðbundin þjóðernishyggja?

Það kom mér því nokkuð á óvart þegar Trump gaf til kynna að slagorð hans í kosningabaráttunni 2020 yrði „Keep America Great“. Málið er dautt. Mission accomplished. Bandaríkin eru orðin stórkostleg á ný. Það er eins og hér sé um að ræða framhaldsmynd, mynd númer tvö fyrst sú fyrri var svo vinsæl, og gert ráð fyrir að vinsældir fyrri myndarinnar muni tryggja aðsókn á þá seinni. Það vantar hinsvegar broddinn sem fyrra slagorðið hafði. Það er ekki vísað til fortíðar sem við ættum að hverfa aftur til, þegar sem allt var betra, heldur vísar slagorðið í nútímann sem fyrirmynd fyrir framtíðina. Það hvetur ekki til gremju yfir einhverju sem hefur verið tekið frá þér eða reiði í garð annarra sem sýna þér ekki virðingu. „Keep America Great“ höfðar því meira til hefðbundinnar þjóðernishyggju heldur en fortíðarþrár eða hóplægrar sjálfsdýrkunar.

og hvað svo?

Frá því að Trump var kosinn hefur mikið verið tínt til um hvernig það gat gerst í einu elsta lýðræðisríki heims að maður af hans gerð næði kjöri. Útskýringa má leita víða, allt frá stjórnarskrá Bandaríkjanna til sálfræði einstaklingsins. Kjörmannakerfið sem stjórnarskráin kveður á um er úrelt, einmenningskjördæmin og tveggjaflokkakerfið eru gölluð og ná ekki að fanga hina miklu félagslegu og pólitísku breidd sem einkennir Bandaríkin. Þá er flokkshollusta umtalsverð í Bandaríkjunum og margir repúblíkanar til áratuga kusu hann með óbragð í munni. Það verður þó ekki framhjá því litið að Trump virðist spila á stóran hluta bandarísku þjóðarinnar eins og fiðlu. Skilaboð hans um ósanngirni heimsins í garð Bandaríkjanna hafa fallið í frjóan jarðveg og kjarnast í slagorðinu „Make America Great Again“.

Árangur slagorðsins má því að hluta til rekja til þeirrar blöndu af fortíðarþrá, andsvari við þjóðfélagsástandi og hóplægri sjálfsdýrkun sem það stendur fyrir. Út frá þessum mælikvörðum er „Keep America Great“ ólíklegt til að ná þeim skriðþunga sem forverinn náði. En hvort eitt slagorð skeri úr um endurkjör Trumps skal ósagt látið. Og þó, það skyldi aldrei verða að misheppnuð markaðssetning verði peningamanninum og raunveruleikastjörnunni að falli.


[i] Mike Mariani, ‘How Nostalgia Made America Great Again’, Nautilus, 25. janúar 2018, sótt 22. júní 2019 á http://nautil.us/issue/56/perspective/how-nostalgia-made-america-great-again-rp.

[ii] M. Sherif, ‘The Psychology of Slogans.’, Journal of Abnormal and Social Psychology 32 (1937): 450–461.

[iii] ‘The American Dream Is Dead | C-SPAN.Org’, sótt 22. júní 2019, https://www.c-span.org/video/?c4764764/american-dream-dead.

[iv] Douglas Schrock o.fl., ‘The Emotional Politics of Making America Great Again: Trump’s Working Class Appeals’, The Journal of Working-Class Studies 2475-4765 2 (6. janúar 2017): 5–22.

[v] Agnieszka Golec de Zavala, Karolina Dyduch‐Hazar og Dorottya Lantos, ‘Collective Narcissism: Political Consequences of Investing Self-Worth in the Ingroup’s Image’, Political Psychology 40, no. S1 (2019): 37–74, https://doi.org/10.1111/pops.12569.

[vi] Christopher M Federico og A Golec de Zavala, ‘Collective Narcissism in the 2016 Presidential Vote’, Public Opinion Quarterly 82, no. 1 (2018): 110–121.

[vii] A Golec de Zavala, Rita Guerra, og Cláudia Simão, ‘The Relationship between the Brexit Vote and Individual Predictors of Prejudice: Collective Narcissism, Right Wing Authoritarianism, Social Dominance Orientation’, Frontiers in Psychology 8 (2017), https://doi.org/10.3389/fpsyg.2017.02023.

[viii] Marta Marchlewska o.fl., ‘Populism as Identity Politics: Perceived In-Group Disadvantage, Collective Narcissism, and Support for Populism’, Social Psychological and Personality Science 9, no. 2 (1 March 2018): 151–62, https://doi.org/10.1177/1948550617732393.

[ix] Karen Tumulty, ‘How Donald Trump Came up with “Make America Great Again”’, Washington Post, 18. janúar 2017, sec. Politics, sótt 22. júní 2019 á https://www.washingtonpost.com/politics/how-donald-trump-came-up-with-make-america-great-again/2017/01/17/fb6acf5e-dbf7-11e6-ad42-f3375f271c9c_story.html.