Brexit og sjálfsmynd þjóðar

Búið ykkur undir Brexit – í breskum rigningarsudda. BBC.

Búið ykkur undir Brexit. Út um allt land má sjá skilti með þessari áletrun. Brexit ætti raunar þegar að vera komið í gegn, og ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Þing hefur verið rofið, kosningabaráttan til neðri deildar breska þingsins er hafin og margir frambjóðendur reyna hvað þeir geta að tala um brýn þjóðfélagsmál, eins og heilbrigðiskerfið, húsnæðismál og aðgengi að menntun. Það er hinsvegar aðeins eitt mál á dagskrá: Brexit, útgangan úr Evrópusambandinu. Einn maður umfram aðra hefur orðið andlit þessa ferlis, Boris Johnson, hinn litríki forsætisráðherra, sem mun jafnframt hafa verið vinsælasti hrekkjavökubúningur ársins. Hann var einn af forsprökkum útgöngusinna í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016 og hefur nú fengið þann kaleik í hendurnar að leiða Breta út úr Evrópusambandinu. Í þessari grein fer ég yfir stöðuna í Brexit, pólítíska aðferðafræði Johnsons, stöðu Íhaldsflokksins og síðast en ekki síst hvernig Brexit hefur orðið hluti af sjálfsmynd bresku þjóðarinnar.

Sköpun Borisar

Forsætisráðherra Bretlands eða karakter úr Little Britain? Business Insider.

Boris Johnson er út af fyrir sig áhugaverður karakter. Sá árangur sem hann hefur náð á stjórnmálasviðinu hvílir fyrst og fremst á því hvernig honum hefur tekist, með nokkuð klókum hætti, að verða helsti talsmaður and-elítismans í Bretlandi, þrátt fyrir að vera sjálfur kominn af miklu forréttindafólki og menntaður í Eaton og Oxford. Um þetta misræmi er hann meðvitaður og hefur unnið að eigin persónusköpun frá því að hann var ungur maður.

Eins og margir stjórnmálamenn gera reynir Johnson að brjóta í bága við staðalímyndina sem almenningur hefur af stjórnmálamönnum. Þann leik reyna margir stjórnmálamenn að leika, en það gerir hann með allt öðrum hætti en til dæmis Donald Trump, kollegi hans hinu megin við Atlantshafið. Johnson gerir út á það að vera óformlegur, utan við sig, tuskulega til hafður, með hárið úfið og illa girtur. Eitt af hans aðalsmerkjum er jafnframt að vera ekki bara „spontant“ heldur að virka hreint og beint út óundirbúinn.

Þessi trúðslæti eru að sjálfsögðu útplönuð. Til að mynda hefur hann orðið uppvís af því að vera með ákveðna „rútínu“ þegar kemur að því að flytja hátíðarræður eða ávörp. Hann mætir seint, spyr skipuleggjendur hvaða viðburður standi yfir og um hvað hann eigi að tala, hripar niður drög að ræðu á servíettu á hálfri mínútu, fer í pontu og byrjar á því að snúa sér við með mjög áberandi hætti til að sjá á borða fyrir ofan sviðið hvar hann sé eiginlega. Við tekur svo ræða sem á að líta út fyrir að vera samin á staðnum en hefur að öllum líkindum verið flutt áður.

Líkur hafa verið leiddar að því að Brexit sjálft sé einmitt ein af afleiðingum þeirra leikrita sem Johnson hefur sett á svið. Frægt er að í upphafi kosningabaráttunnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2016 hélt hann sig til hlés og skrifaði tvær ólíkar greinar um afstöðu sína til aðildar að Evrópusambandinu, eina á móti og aðra fylgjandi. Síðan bar hann þessar tvær greinar saman og mat hvor væri pólítískt fýsilegri og líklegri til árangurs. Ekki þarf að tíunda hvor greinin varð fyrir valinu og birtist í Telegraph. Þáttur Johnsons í kosningabaráttunni 2016 var veigamikill, og ekki víst að útgöngusinnar hefðu náð sama árangri ef hans hefði ekki notið við.

Okkur getur öllum reynst erfitt gera upp við okkur hvaða ákvörðun skuli taka. Sumar ákvarðanir eru þó afdrifaríkari en aðrar. BBC.

Leiðtogastíll and-stjórnmálamannsins

Félagssálfræðingurinn Stephen Reicher hefur sett fram áhugaverða greiningu á Johnson. Hann segir að til þess að skilja vinsældir Borisar Johnson þurfi í raun að endurskoða viðtekinn hugsunarhátt í leiðtogafræðum. Johnson sé ekki bara að brjóta reglur og hefðir, heldur reglur og hefðir sem eiga við um tiltekinn hóp, stjórnmálamenn, sem sé algjörlega aðgreindur frá „okkur“ sem almenningi. Með því býr hann til mjög skörp skil á milli þessara tveggja hópa; stjórnmálamanna og almennings. Hegðun hans á svo að sýna rækilega fram á að hann flokkist ekki með stjórnmálamönnum, heldur með almenningi. Gallar hans og breyskleiki undirstrika það að hann sé einn af „okkur“ og geti því talað fyrir hönd almennings mun frekar en hefðbundnir stjórnmálamenn.

Meira að segja það nafn sem hann kýs að nota er viðleitni til þess að gera sig alþýðlegri. Hann heitir raunar hinu mjög svo aristókratíska nafni Alexander Boris de Pfeffel Johnson. Millinafnið mun hann hafa tekið upp þegar hann var í Eaton, hvar persónusköpun hans sem ensks sérvitrings mun hafa hafist. Boris er einfaldlega nær „okkur“ heldur en Alexander de Pfeffel.

Það að skilgreina sig sem „and-stjórnmálamann“ sem standi með almenningi gegn stjórnmálaelítunni er þó vandkvæðum háð. Þegar þú hlýtur framgang í embætti og verður leiðtogi bæði flokks og lands þarft þú nefnilega að geta unnið með sömu stjórnmálamönnum og þú hefur eytt tíma og orku í að skilgreina þig gegn. Þá ert þú orðinn utanaðkomandi (e. out-group, „other“) í hópi samstarfsfólks þíns. Við það myndast því þversagnarkennd staða.

Stephen Reicher segir að í þessari þversögn hafi leiðtogar líkt og Johnson um tvennt að velja. Annað hvort brjóti þeir andstæðinga sína á bak aftur með hörku og hverfi til valdboðsstefnu (e. authoritarianism), ellegar mistakist þeim ætlunarverk sitt og verði neyddir til uppgjafar. Með valdboðsstefnu er átt við undirgefni gagnvart yfirvaldi, virðingu fyrir siðum og venjum og refsigleði gagnvart þeim sem ekki fylgja þeim eða beygja sig ekki undir stjórnvöld. Johnson hefur tekist hið fyrrnefnda og er á hraðleið til valdboðsstefnu og harðrar hægri stefnu. Eftirminnilegasta dæmi þess er eftir vill sú ákvörðun hans að reka 21 þingmann úr Íhaldsflokknum eftir að þau höfðu óhlýðnast flokkslínunni í atkvæðagreiðslu tengdri Brexit samningi Johnsons, eitthvað sem forveri hans, Theresa May, hafði mörg tækifæri til en gerði aldrei.

Raunar bendir margt til þess að Bretland sé á leið í átt til aukinnar valdboðsstefnu og að í landinu séu nú kjör aðstæður fyrir hana til að vaxa og dafna. Fólk hallast frekar til valdboðs og „sterkra“ leiðtoga þegar samfélagið stendur frammi fyrir meiriháttar vandamálum sem erfitt er að hafa stjórn á (sjá t.d. hér). Brexit hefur að mörgu leyti skapað slíkt ástand, því óvissan um afleiðingar útgöngu er mikil og glundroði hefur skapast bæði í stjórnmálunum sem og í samfélaginu sem er að rifna í sundur úr ágreiningi. Sögulegt dæmi má taka af því að slíkar aðstæður ríktu einmitt í Þýskalandi á árunum fyrir valdatöku Hitlers, þar sem nasistar grófu markvisst undan stöðugleika í þjóðfélaginu á sama tíma og þau boðuðu styrka stjórn og stöðugleika.

Í því pólitíska öngþveiti sem ríkir í breskum stjórnmálum boðar Johnson engar málamiðlanir til að lægja öldurnar og ná sáttum, heldur harðlínu – „do or die, come what may“. Skilaboðin í þeirri harðlínu eru að nú muni Bretland taka aftur stjórnina á sínum innanríkismálum, með aukinni áherslu á yfirráð yfir landamærum og strangari innflytjendalöggjöf. Stöðugleikinn sé því rétt handan við hornið.

Það liggur hinsvegar í augum uppi að harðlínustefna Johnsons er líka tilraun til þess að halda kjósendum við Íhaldsflokkinn og koma í veg fyrir að þeir færi sig til Brexit flokks Nigel Farage. Það virðist hafa tekist vel hingað til, enda hefur Íhaldsflokkurinn nú talsvert forskot í könnunum og Brexit flokkurinn varla hálfdrættingur miðað við þau úrslit sem hann hlaut í kosningunum til Evrópuþingsins í maí.

Þó harðlínustefnan hafi mögulega gagnast í því að halda Brexit flokknum í skefjum er Íhaldsflokkurinn kominn svo langt til hægri að varla er lengur hægt að tala um hann sem breiðfylkingu (e. broad church) líkt og flokkurinn hefur gefið sig út fyrir að vera. Það kristallast í óvenju harkalegri ræðu innanríkisráðherrans Priti Patel á landsfundi flokksins í haust. Hún er sjálf af indverskum uppruna og nýtir sér þá sérstöðu sína á meðal breskra stjórnmálamanna til að réttlæta mjög svo íhaldssama stefnu sína í innflytjendamálum. Hún, sem dóttir innflytjenda, muni ekki sitja undir því „að vera skóluð til af frjálslyndum elítistum í norðurhluta London“, eins og hún orðar það sjálf. Hún segir það sé sérstakt markmið sitt að binda endi á frjálsa för fólks, í eitt skipti fyrir öll, og taka í staðinn upp innflytjendakerfi sem byggir á stigum, þar sem aðeins hin „klárustu og bestu“ verði handvalin. Brot úr ræðu hennar má sjá hér að neðan.

Flokkshollusta í rénun

Johnson hefur hinsvegar haft ærnar ástæður til þess að hafa áhyggjur yfir stöðu Íhaldsflokksins gagnvart Brexit flokknum, og Brexit málinu í heild sinni. Í sumar birtist til að mynda skoðanakönnun á meðal flokksbundinna íhaldsmanna þar sem niðurstaðan var skýr; Brexit er ofar öllu í þeirra huga og flokksmenn tilbúnir til þess að fórna öllu öðru til þess að útgangan eigi sér stað. Könnunin sýndi að Íhaldsmenn voru reiðubúnir til þess að hætta á að konungsdæmið liðaðist í sundur, að breskur efnahagur yrði fyrir miklum skakkaföllum og meira að segja á endalok Íhaldsflokksins, til þess að útgangan gæti átt sér stað.

Íhaldsmenn eru reiðubúnir til þess að láta flokkinn lönd og leið til að koma Brexit í gegn. YouGov.

Johnson veit sem er að flokkshollusta er á fallanda fæti í Bretlandi. Almennt séð eru kjósendur þó tilbúnir til að líta fram hjá glappaskotum eða jafnvel svikum flokka sinna og leiðtoga þeirra. Kjör Donalds Trumps er ef til vill eftirminnilegasta dæmið um það í seinni tíð, þar sem íhaldssamir og kristnir hópar kusu hann í stórum stíl þrátt fyrir óviðurkvæmilegt tal hans um að grípa í kynfæri kvenna, fjöldan allan af hjónaböndum og almennt ókristinlegt líferni. Þolinmæðin virðist hinsvegar vera á þrotum hjá breskum Íhaldsmönnum og útgöngusinnum. Flokkshollusta hefur vikið fyrir trú á málstaðinn, ef svo mætti að orði komast.

Brexit sem hluti af sjálfsmynd þjóðar

Brexit undirstrikar nefnilega breyttan veruleika í stjórnmálum á heimsvísu. Hefðbundnir stjórnmálaflokkar eru ekki lengur jafn mikilvægur hluti sjálfsmyndar þorra fólks líkt og þeir voru á árum áður. Áhugaverð skýrsla var gefin út í sumar þar sem greint var frá því að Bretum sem samsami sig sterklega með stjórnmálaflokki hafi fækkað úr tæpum helmingi þjóðarinnar á sjöunda áratugnum niður í aðeins 9% árið 2018. Á sama tíma samsami 44% kjósenda sig með sinni hlið í Brexit málinu; útgöngu eða áframhaldandi aðild (Leave og Remain). Þessum hópum líkar svo einstaklega illa við hvorn annan. Kjósendur hafa því fjarlægst stjórnmálaflokka en Leave og Remain hafa fyllt það tómarúm og eru orðin sjálfsmyndir (e. identities) út af fyrir sig.

Í almennri umræðu hefur verið rætt mikið um aukna skautun, eða pólaríseringu, í stjórnmálum; það er gliðnun stjórnmálaviðhorfa í átt að öfgum í báðar áttir (t.d. hægri og vinstri), svo færri mætast í miðjunni. Stjórnmálafræðingurinn Lillian Mason gaf nýlega út áhugaverða bók, Uncivil Agreement: How Politics Became Our Identity, um skautun í Bandaríkjunum. Skautun hefur náð slíkum hæðum þar í landi að varla nokkur samræðugrundvöllur er á milli Demókrata og Repúblíkana. Þessir tveir hópar hafa gríðarlega neikvætt viðhorf til hvors annars, líta á hvorn annan sem öfgamenn og vilja ekki einu sinni búa nálægt hvorum öðrum. Líkt og kunnugt er þá er enn uppi mikill ágreiningur um afstöðu til grundvallarmála, eins og réttindi hinsegin fólks, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, skotvopnalöggjöfina, og svo framvegis.

Við fyrstu sýn mætti ætla að staðan sé svipuð í Bretlandi og skautun sé í hæstu hæðum. Skipting fólks í Leave og Remain á líklega bara eftir að harðna og halda áfram eftir útgönguna. Það athyglisverða við bresk stjórnmál er þó að á meðan útganga og áframhaldandi aðild skipta fólki í lið, þá virðist vera að draga saman með Bretum í öðrum málum. Innflytjendamál voru stórmál í aðdraganda Brexit atkvæðagreiðslunnar og útgöngusinnar höfðu neikvæðari viðhorf til innflytjenda en stuðningfólk áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Nú hefur heldur dregið saman með hópunum og Bretar eru nú heilt yfir jákvæðari í garð innflytjenda en fyrir atkvæðagreiðsluna. Þetta á einnig við um viðhorf til heilbrigðisþjónustu, velferðarmála, réttinda hinsegin fólks og svo framvegis. Með öðrum orðum eru Bretar meira sammála en áður um ýmis einstök mál, og hafa færst í frjálslyndisátt, þó stóru átakalínurnar séu vissulega útganga eða áframhaldandi aðild.

Sambandsslit eru alltaf erfið, sama hvort það er á milli fólks eða landa. Independent.

Ofbeldi og harka í loftinu

Minni skautun og meiri sátt í einstaka málum þarf þó ekki endilega að þýða að stjórnmálin og þjóðfélagsumræðan séu að verða uppbyggilegri, hvað þá vinalegri. Bresk þjóðfélagsumræða hefur alltaf verið sérstaklega óvægin og harkaleg, og þessi nýja afstaða sem skiptir fólki í hópa, Leave og Remain, virðist aðeins vera að harðna og fólk reiðubúið til að ganga langt til að ná sínu fram. Nýleg könnun leiddi til dæmis í ljós að fólki finnist ofbeldi gegn þingmönnum vera „þess virði“ ef það þýddi að þeirra málstaður hlyti sigur í Brexit deilunni. Þetta átti jafnt við um útgöngusinna og stuðningsfólk áframhaldandi veru.

Þetta er í takti við þann málflutning sem Johnson og aðrir forsprakkar Íhaldsmanna hafa haft uppi. Johnson kallaði hið svokallaða Benn Act, lög sem samþykkt voru í neðri deild breska þingsins sem meinuðu útgöngu án samnings, ítrekað surrender bill, eða uppgjafarfrumvarp. Hann var gagnrýndur, bæði af samflokksmönnum og stjórnarandstöðunni, fyrir að ýja með að því að þau sem væru á móti Brexit séu föðurlandssvikarar og þjóðníðingar, og þar með hvetja til ofbeldis gegn þeim. Johnson neitaði hinsvegar að draga í land eða malda í móinn, á sama tíma og hótanir í garð þingmanna eru nú tvöfalt fleiri en fyrir Brexit atkvæðagreiðsluna.

Boris Johnson af öllum er meðvitaður um mátt orða og orðræðu, enda starfaði hann lengi sem blaðamaður og var pistlahöfundur í Daily Telegraph til margra ára. Málflutningur hans vekur nefnilega hugrenningartengsl hjá mörgum við morð Jo Cox, þingmanns Verkamannaflokkins sem var myrt í aðdraganda Brexit atkvæðagreiðslunnar af öfga-hægrimanni og útgöngusinna. Það fór því fyrir brjóstið á mörgum þegar hann ekki bara neitaði að biðjast afsökunar fyrir notkun á orðunum „svik“ og „uppgjöf“, heldur bætti í og sagði að besta leiðin til að heiðra minningu Jo Cox væri að koma Brexit í gegn.

Johnson er ekki allra. The Herald.

Það er þó ekki bara ofbeldi yfirvofandi yfir þingmönnum í Westminster, því skærur hafa einnig staðið yfir á Norður-Írlandi. Herskráir lýðveldissinnar hafa staðið fyrir árásum á lögreglu og sambandssinnar haldið fánabrennur, þar sem fáni írska lýðveldisins fær að brenna á björtu báli. Síðsumars var skjölum frá stjórnvöldum lekið til fjölmiðla sem bentu til þess að ef Bretland færi úr Evrópusambandinu án samnings þýddi það fulla landamæragæslu (e. hard border) á milli landanna tveggja, sem hefði án efa verið olía á þann eld sem enn kraumar undirniðri á Írlandi. Áhugaleysi á málefnum þess minnsta og fámennasta af löndum fjórum sem mynda Sameinaða konungsdæmið hefur ekki bara ríkt í Brexit umræðunni, heldur er í raun í takt við lítinn áhuga Englendinga á málefnum Norður-Írlands í gegnum tíðina. Áhugaleysið sést vel í því að árásir á lögreglu, sem alla jafna þykja alvarlegt mál, hafa ekki hlotið nokkra athygli sem um munar í fjölmiðlum.

Landamæragæslu á Norður-Írlandi mótmælt. BBC.

Munu Bretar taka aftur stjórnina?

Kosningabaráttan fyrir kosningarnar 12. desember er nú hafin og það verður að segjast eins og er að nokkuð líklegt er að Íhaldsflokkurinn vinni þær með jafn sannfærandi hætti og mögulegt er í því ástandi sem ríkir, það er annað hvort með litlum meirihluta á þingi eða yfirburðum þegar kemur að þingmannatölu, en án meirihluta. Harðlínustefna Johnson hefur í raun tryggt það að þrátt fyrir dvínandi hollustu við stjórnmálaflokka heldur Íhaldsflokkurinn sjó með því að nýta sér það hve mikilvægt Brexit er orðið sem hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar. Útganga án samnings er í raun orðin stefna flokksins og stórum hluta þjóðarinnar hugnast það ágætlega, þrátt fyrir afleiðingarnar fyrir efnahagslífið og öryggi breskra borgara á Norður-Írlandi.

Síðan í haust hefur Johnson hengt sig með ansi afgerandi hætti í dagsetningunni 31. október og gerði hana að nokkurs konar slagorði. Honum tókst ekki að standa við loforðið um útgöngu þann daginn, en eins og staðan er núna virðist honum hafa tekist að sannfæra meirihluta útgöngusinna um að hann hafi af heilindum gert allt sem í hans valdi standi til þess að af útgöngunni verði. Leiðtogastíll hans sem and-stjórnmálamaður, sem er öðruvísi en hinir, eykur trúverðugleika hans sem fulltrúa meirihlutans sem vildi útgöngu árið 2016, enda tilheyrði mikill meirihluti hefðbundinna stjórnmálamanna hinum hópnum, sem studdi áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu.

Þó erfitt sé að sjá fyrir sér annað en að af útgöngunni verði á næsta ári vilja stjórnarandstöðuflokkarnir, Verkamannaflokkurinn, Frjálslyndir demókratar og Skoski þjóðarflokkurinn, aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Valmöguleikarnir í þeirri atkvæðagreiðslu yrðu þá fullkláraður útgöngusamningur annars vegar og áframhaldandi aðild hinsvegar. Hvort sem verður ofan á, útganga með einhvers konar Johnson-samningi eða önnur atkvæðagreiðsla, mun það hleypa illu blóði í þessa tvo hópa og Brexit öðlast framhaldslíf um ókomin ár. Til lengri tíma litið hlýtur það að verða einn af lærdómum Brexit ferlisins að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið óheppileg leið til þess að leysa flókin ágreiningsmál. Það sést vel á tilurð Leave og Remain sem sérstakra sjálfsmynda, sem eru orðin sterkari en aðild stjórnmálaflokkum, sem í áratugi skiptu fólki í lið en gera það aðeins að litlu leyti nú.

Útgangan úr Evrópusambandinu hefur sett bresk stjórnmál á „hold“ í rúmlega þrjú ár og erfitt er að sjá að önnur mál komist á dagskrá fljótlega. Brexit, tilraunin til að „taka aftur stjórnina“ á eigin málum virðist ætla að renna út í sandinn, því frekar má segja að Brexit hafi öðlast sjálfstætt líf og þvert á móti tekið stjórnina af Bretum.