Trump og stjórnmál ósanngirninnar

Make America Great Again er líklega eitt þekktasta pólitíska slagorð samtímans, en mun nýtt slagorð byggt á grunni hins gamla skila Trump sama árangri?


Hugmyndin að þessum pistli kviknaði í vor þegar ég sat fyrirlestur hjá bandarískum fræðimanni á sviði lýðheilsu. Fyrirlesturinn var áhugaverður og ekki mikið meira um það að segja, en eitt hnaut ég um. Án þess að fara í smáatriðum út í efni fyrirlestrarins þá fjallaði hann meðal annars um áhrif mataræðis á greind. Mikil neysla unninna kjötvara, gosdrykkja og annarrar óhollustu á að hafa neikvæð áhrif á greindarfar, og það sem meira er, þá gæti greindarfar bandarísku þjóðarinnar allrar verið farið að láta undan síga af þessum sökum, vildi fyrirlesarinn meina. Notaði hann kjör Donald Trumps árið 2016 sem dæmi því til stuðnings. Rökleiðslan var því sú að slæmt mataræði hafi valdið greindartapi sem síðan stuðlaði að kjöri Trumps. Hann bætti við:


„I mean, who would fall for something as shallow as Make America Great Again? It doesn’t even mean anything“.


Slagorðið væri því svo grunnhyggið að ótrúlegt er að fólk hafi fallið fyrir því. Innihaldið er ekkert. Ég staldraði við þessi orð, og þau hafa verið mér hugleikin síðan. Þau voru sjálfsagt sögð í hálfkæringi, en samlíkingin lýsir engu að síður nokkuð kaldrifjaðri nálgun á mannshugann, manninn sem tilfinningaveru í flóknu samfélagi með fortíð og sögu. Vissulega er það rétt að „Make America Great Again“ þýðir strangt til tekið ekki neitt. Hvenær Bandaríkin voru síðast stórkostleg og hvað fellst yfir höfuð í því að land sé stórkostlegt eru hinsvegar ekki spurningar sem verið er að leitast svara við. Góð pólitísk slagorð tala bæði til okkar persónulega sem og inn í sameiginlegan reynsluheim þjóðar.

hið persónulega – fortíðarþrá

Það var það sem Trump gerði svo snilldarlega með slagorðinu „Make America Great Again“. Hann vakti upp nostalgíu – fortíðarþrá eftir eldri og betri tímum. Fortíðarþrá eru bjargráð – leið til þess að verjast áföllum, streitu og krísum dagsins.[i] Að minnast góðra hluta hefur jákvæð áhrif á líðan og sjálfstraust okkar. Við bókstaflega ornum okkur við minningar fortíðar. Minningar eru hinsvegar ekki fasti, þær taka stöðugum breytingum og eru því ekki alltaf áreiðanlegar. Tíminn líður, minningarnar skekkjast og teygjast. Eftir því sem tímanum vindur fram ýkjum við hlut jákvæðra tilfinninga og drögum úr hlut neikvæðra tilfinninga í minningunum. Gjarnan lítum við um öxl og minnumst tiltekinna tímabila í fortíð okkar með sérstakri hlýju sé miðað við nútímann, en ef við köfum dýpra rennur upp fyrir okkur að á þeim tíma tókumst við á við aðrar áskoranir sem gerðu hversdaginn erfiðan. Skynsemin á því til að víkja fyrir bjöguðu, huglægu (en mjög svo mannlegu) mati. Þetta nýtir Trump sér í sinni orðræðu og vísar til gullaldar Bandaríkjanna og ameríska draumsins á 20. öld og segir samanburðinn við daginn í dag vondan.

slagorð sem andsvar

Meint andlát ameríska draumsins er mikilvægt í þessu samhengi. Félagssálfræðingurinn Muzafer Sherif benti á í grein frá árinu 1937[ii] á að pólitísk slagorð virki best þegar þau eru andsvar við ástandi í þjóðfélaginu. Í frönsku byltingunni var viðkvæðið „Frelsi, jafnrétti, bræðralag“ gegn harðstjórn, kúgun og ójöfnuði. Í Rússlandi lofuðu Bolsévíkar friði, landi og brauði í stríðshrjáðu landi þar sem ríkti hungursneyð og bændaánauð. Nasistar vildu eitt ríki, eina þjóð og einn foringja sem svar við upplausnarástandi og lýðræði sem þeir töldu meingallað. Barack Obama boðaði von í landi sem var í efnahagskreppu og átti í tveimur stríðum sem gengu á afturfótunum. „Take Back Control“ fangaði vel tilfinningar margra Breta í garð Evrópusambandsins, og náði mun meira flugi en „Britain Stronger in Europe“ í Brexit-kosningunni 2016. „Ameríski draumurinn er dauður, en ég ætla að gera hann stærri og sterkari en hann var nokkurn tímann áður,“ segir Trump áður en hann öskrar sitt víðfræga slagorð. [iii]

stjórnmál ósanngirninnar

„Make America Great Again“ boðar viðspyrnu gegn meintri hnignun Bandaríkjanna. Trump byrjaði gjarnan ræður sínar í kosningabaráttunni 2016 á því að leggja áherslu á bágborið ástand landsins miðað við það sem áður var [iv]. Hann nuddaði salti í sárið og lét áheyrendur hreinlega skammast sín yfir stöðunni. Máttur og megin landsins væri ekki aðeins á fallanda fæti heldur væri landið aðhlátursefni í augum annarra þjóða. Ástandið sé óvinaríkjum (Mexíkó, Kína o.s.frv.) og svörtum sauðum innanlands (elítunni) að kenna. Hann leiddi síðan skömmina í þann farveg að hún breyttist í reiði gagnvart óvinum – innan og utanlands – en lofaði því að Bandaríkin gætu aftur fyllst stolti og öryggistilfinningu næði hann kjöri. Ræðurnar endaði hann gjarnan á „Make America Great Again“. Skilaboðin um niðurlægingu landsins og ósanngirni heimsins í garð Bandaríkjanna hafa því orðið samofa slagorðinu.

Rauði þráðurinn hjá Trump hvort sem litið er til slagorða, auglýsinga eða ræða er að Bandaríkin eigi betra skilið, að ekki sé tekið mark á þeim á alþjóðavettvangi og að aðrar þjóðir sýni þeim ekki tilhlýðilega virðingu. Hann spilar því inn á sálfræðilega ferla sem ég hef kosið að þýða sem hóplæga sjálfsdýrkun (e. collective narcissism), sem er hugtak sem hefur verið að ryðja sér rúms innan stjórnmála- og félagssálfræði undanfarinn áratug. Hóplæg sjálfsdýrkun er þegar fólk dýrkar (verður narsissískt) hóp sem það tilheyrir, t.a.m. þjóð.[v] Hóplægir sjálfsdýrkendur trúa því að þeirra eigin hópur sé einstakur og eigi skilið sérstaka meðferð, en finnst jafnframt að yfirburðirnir séu ekki viðurkenndir af öðrum hópum. Hóplægir sjálfsdýrkendur eru fordómafullir og árásargjarnir í garð hópa sem eru taldir hafa unnið gegn manns eigin hópi, enda þreytist Trump seint á því að minna á ósanngirni Kínverja og Mexíkóa í garð Bandaríkjamanna. Hóplægir sjálfsdýrkendur eru móðgunargjarnir fyrir hönd hópsins síns og bregðast hart við því þegar ágæti hópsins er dregið í efa. Rannsóknir sýna að bandarísk hóplæg sjálfsdýrkun er einn sterkasti forspárþáttur þess að hafa kosið Trump [vi]  og hefur verið tengd við stuðning við popúlisma í öðrum löndum, til að mynda Bretlandi [vii] og Póllandi [viii]. Þá má telja líklegt að hóplæg sjálfsdýrkun hafi átt sinn þátt í uppgangi nasismans í Þýskalandi á millistríðsárunum.

föðurlandsást dugði ekki til

Hóplæg sjálfsdýrkun fellur undir regnhlíf þess sem vísað hefur verið til sem óöruggrar samsömunar með hópum (e. insecure identification). Hillary Clinton, líkt og flestir sem ætla sér að ná langt í bandarískum stjórnmálum, reyndi líka að slá á þjóðlega strengi, en þó með öðrum hætti en Trump. Clinton tók annan pól í hæðina og hennar málflutningur er í ætt við örugga samsömun (e. secure identification), þ.e. jákvæðni í garð eigin lands sem veltur ekki á viðurkenningu annarra. Um Trump hafði hún meðal annars að segja:

„If you’re looking for someone to say what is wrong with America, I’m not your candidate. I think there is more right than wrong. I don’t think we have to make America great. I think we have to make America greater.“ [ix]

Clinton reyndi því að höfða til föðurlandsástar (e. patriotism) sem er uppbyggileg, frekar en eyðileggjandi líkt og hóplæg sjálfsdýrkun Trumps. Meira sé gott við Bandaríkin en vont og landsmenn eigi að vinna að því að gera landið enn betra. Slíkur málflutningur mátti síns þó lítils í því andrúmslofti sem Trump tókst að skapa. Hóplæg sjálfsdýrkun Trumps féll í frjórri jarðveg en varkár og hófstillt föðurlandsást Clinton.

hefðbundin þjóðernishyggja?

Það kom mér því nokkuð á óvart þegar Trump gaf til kynna að slagorð hans í kosningabaráttunni 2020 yrði „Keep America Great“. Málið er dautt. Mission accomplished. Bandaríkin eru orðin stórkostleg á ný. Það er eins og hér sé um að ræða framhaldsmynd, mynd númer tvö fyrst sú fyrri var svo vinsæl, og gert ráð fyrir að vinsældir fyrri myndarinnar muni tryggja aðsókn á þá seinni. Það vantar hinsvegar broddinn sem fyrra slagorðið hafði. Það er ekki vísað til fortíðar sem við ættum að hverfa aftur til, þegar sem allt var betra, heldur vísar slagorðið í nútímann sem fyrirmynd fyrir framtíðina. Það hvetur ekki til gremju yfir einhverju sem hefur verið tekið frá þér eða reiði í garð annarra sem sýna þér ekki virðingu. „Keep America Great“ höfðar því meira til hefðbundinnar þjóðernishyggju heldur en fortíðarþrár eða hóplægrar sjálfsdýrkunar.

og hvað svo?

Frá því að Trump var kosinn hefur mikið verið tínt til um hvernig það gat gerst í einu elsta lýðræðisríki heims að maður af hans gerð næði kjöri. Útskýringa má leita víða, allt frá stjórnarskrá Bandaríkjanna til sálfræði einstaklingsins. Kjörmannakerfið sem stjórnarskráin kveður á um er úrelt, einmenningskjördæmin og tveggjaflokkakerfið eru gölluð og ná ekki að fanga hina miklu félagslegu og pólitísku breidd sem einkennir Bandaríkin. Þá er flokkshollusta umtalsverð í Bandaríkjunum og margir repúblíkanar til áratuga kusu hann með óbragð í munni. Það verður þó ekki framhjá því litið að Trump virðist spila á stóran hluta bandarísku þjóðarinnar eins og fiðlu. Skilaboð hans um ósanngirni heimsins í garð Bandaríkjanna hafa fallið í frjóan jarðveg og kjarnast í slagorðinu „Make America Great Again“.

Árangur slagorðsins má því að hluta til rekja til þeirrar blöndu af fortíðarþrá, andsvari við þjóðfélagsástandi og hóplægri sjálfsdýrkun sem það stendur fyrir. Út frá þessum mælikvörðum er „Keep America Great“ ólíklegt til að ná þeim skriðþunga sem forverinn náði. En hvort eitt slagorð skeri úr um endurkjör Trumps skal ósagt látið. Og þó, það skyldi aldrei verða að misheppnuð markaðssetning verði peningamanninum og raunveruleikastjörnunni að falli.


[i] Mike Mariani, ‘How Nostalgia Made America Great Again’, Nautilus, 25. janúar 2018, sótt 22. júní 2019 á http://nautil.us/issue/56/perspective/how-nostalgia-made-america-great-again-rp.

[ii] M. Sherif, ‘The Psychology of Slogans.’, Journal of Abnormal and Social Psychology 32 (1937): 450–461.

[iii] ‘The American Dream Is Dead | C-SPAN.Org’, sótt 22. júní 2019, https://www.c-span.org/video/?c4764764/american-dream-dead.

[iv] Douglas Schrock o.fl., ‘The Emotional Politics of Making America Great Again: Trump’s Working Class Appeals’, The Journal of Working-Class Studies 2475-4765 2 (6. janúar 2017): 5–22.

[v] Agnieszka Golec de Zavala, Karolina Dyduch‐Hazar og Dorottya Lantos, ‘Collective Narcissism: Political Consequences of Investing Self-Worth in the Ingroup’s Image’, Political Psychology 40, no. S1 (2019): 37–74, https://doi.org/10.1111/pops.12569.

[vi] Christopher M Federico og A Golec de Zavala, ‘Collective Narcissism in the 2016 Presidential Vote’, Public Opinion Quarterly 82, no. 1 (2018): 110–121.

[vii] A Golec de Zavala, Rita Guerra, og Cláudia Simão, ‘The Relationship between the Brexit Vote and Individual Predictors of Prejudice: Collective Narcissism, Right Wing Authoritarianism, Social Dominance Orientation’, Frontiers in Psychology 8 (2017), https://doi.org/10.3389/fpsyg.2017.02023.

[viii] Marta Marchlewska o.fl., ‘Populism as Identity Politics: Perceived In-Group Disadvantage, Collective Narcissism, and Support for Populism’, Social Psychological and Personality Science 9, no. 2 (1 March 2018): 151–62, https://doi.org/10.1177/1948550617732393.

[ix] Karen Tumulty, ‘How Donald Trump Came up with “Make America Great Again”’, Washington Post, 18. janúar 2017, sec. Politics, sótt 22. júní 2019 á https://www.washingtonpost.com/politics/how-donald-trump-came-up-with-make-america-great-again/2017/01/17/fb6acf5e-dbf7-11e6-ad42-f3375f271c9c_story.html.